17. júní 2010. Hættum að láta bekkjast. - Verjum frelsið!

Meðal sóknarbarna minna og víða um Suðurland hefur orðið nokkur umræða um prédikun mína 17. júní s.l.  Hafa margir beðið um að fá að lesa hana. Þess vegna birti ég hana hér:  

Sr. Egill Hallgrímsson.  Prédikun í Torfastaðakirkju á lýðveldisdaginn 2010. 

Enn á ný höldum við Íslendingar hátíð á frelsisdegi.   Við fögunum yfir því að við teljum okkur vera frjálsa þjóð í frjálsu landi.  Við fögnum yfir þeim verðmætum sem fólgin eru í þjóðmenningu okkar.  

Kristin trú og þjóðmenningin.

Við sem komum til kirkju við fögnum yfir trúnni, en í þúsund ár hafa íslensk þjóðmenning og kristin trú verið samofin hver annarri með þjóðinni.   Í þúsund ár hefur kirkja Jesú Krists haft fótfestu í landinu og orð Guðs verið lesið og prédikað um landið allt.  Landið hefur verið helgað Guði með því að byggja kirkjur í hverju héraði, hverri sveit.  Í þessum kirkjum hefur þjóðin komið saman til fundar við Drottin, auk þess sem bænir hafa stigið upp frá heimilum landsins, kynslóð eftir kynslóð.

Það er grundvallaratriði í boðskap Jesú Krists að bera skuli ótakmarkaða virðingu fyrir helgi og rétti hvers einstaklings.   Þess vegna hafa mannréttindi náð meiri fótfestu í löndum þar sem kristin trú er ríkjandi en í öðrum löndum.  Slík lönd taka mið af kristnum gildum í stjórnarskrám sínum, í löggjöf sinni, uppbyggingu skólakerfisins, uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og í stjórnsýslunni allri.   Þar þar ber hæst Norðurlöndin,  Finland, Svíþjóð, Noreg, Danmörku og Ísland. Einmitt í þessum löndum - af öllum löndum í heiminum, - hafa sennilega skapast hvað nánust tengsl milli ríkis og kirkju.   Fólk um víða veröld horfir til þessara þjóðfélaga sem fyrirmynda annarra þjóða hvað varðar mannréttindi, mannúð og velferð.

Jesús Kristur er málsvari hinna undirokuðu.

IMG_8058Þeir guðsdómskraftar sem menn trúðu á í heðini voru hvorki kærleiksríkir né bjartir.   Þeir báru ekki umhyggju fyrir fólki enda þreifst margs konar ómannúð í skjóli þeirra,  svo sem barnaútburður og það að aumingjum og gamalmennum var hent fyrir björg.

Þetta breyttist er hinn hvíti Kristur, konungur konunganna og Drottinn drottnanna varð Drottinn og konungur norðurlandanna, en kross hans er einmitt í þjóðfánum þeirra allra.

Taumlaus grimmd, óheiðarleiki og kúgun á þeim sem minnimáttar voru þreifst auðvitað áfram í einhverjum mæli,  því  vondir menn og siðspilltir eru allstaðar á öllum öldum.  En þrátt fyrir það urðu alger umskipti er Jesús Kristur varð hinn nýi Drottinn Norðurlandanna.   Gjörsamlega nýr mannsskilningur varð ríkjandi,  og ný birta færðist yfir með nýju frelsi og nýrri mannúð.  

Hinir fátæku, undirokuðu og kúguðu eignuðust málsvara í Drottni Jesú. Hann fór einmitt  sveit úr sveit, þorp úr þorpi og borg úr borg, - án þess að eiga nokkurn fastan samastað - og gaf sig að slíku fólki sem vinur þess og bróðir,  er hann gekk hér um og gerði gott.  Þau eignuðust málsvara í honum sem kallaði hina minnstu og aumustu í samfélaginu bræður sína og systur og sagði:  „Hvað sem þið gerið þeim, - það gerið þið mér“.

Hann hefur nú verið konungur Íslands í 1000 ár og íslensk löggjöf, íslenskt heilbrigðiskerfi og menntakerfi hafa mótast af kristinni trú.

Við höfum verið blekkt.

Við höfum ástæðu til að fagna í dag, á 17. júní, fagna yfir landinu okkar, fagna yfir sumrinu, fagna frelsinu og bara því að vera til.  En um leið er það óneitanlega svo að það eru – núna þegar við höldum upp á 17 júní 2010, - undirliggjandi og ríkjandi talsverður ótti, gremja og reiði meðal þjóðarinnar og það ekki af ástæðulausu.

Við, venjulegir Íslendingar,  - við sem teljumst til alþýðu þessa lands, - við höfum verið plötuð.  Við höfum verið plötuð af forystumönnum í viðskiptalífi þessa lands, - svokölluðum auðmönnum og útrásarvíkingum.  Við höfum líka verið plötuð af stjórnmálamönnum,  - hin spillta stjórnmálastétt hefur platað okkur.  Við höfum líka verið plötuð af fjölmiðlum og fjölmiðlafólki,  sem flest var í eigu auðmanna og stjórnmálamanna eða brauðfætt af þeim.  Því var eðlilegt að þau flyttu fréttir í samræmi við vilja eigenda sinna.   Hrunið mikla, síðla árs 2008 varð jafn alvarlegt og raun ber vitni vegna gerða þessa fólks.

Það er enn verið að blekkja okkur.

Og það sem verst er.  Það er hætt við að enn sé verið að plata okkur.   Það er hætt við að enn sé verið að níðast á venjulegu fólki. 

Það er ekki af ástæðulausu að traust og trú á stjórnmálafólki  hefur hrunið meðal þjóðarinnar.  Þjóðin er engir kjánar.  Þjóðin sér hvers konar fólk þetta er upp til hópa.  Það er eins og allt of margir kasti hugsjónum sínum og sannfæringu þegar þau setjast á alþingi fyrir utan nú öll styrkjamálin, eða mútumálin eins og e.t.v. væri réttara að kalla þau.  

Það er engin furða þó búið sé að kjósa Sylvíu Nótt sem borgarstjóra í Reykjavík, - en ég held það sé rétt sem Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri segir, að sá merki maður, Jón Gnarr sé ekkert annað en Sylvía Nótt í öðru veldi.  Fólk er með þessu að lýsa vanþóknun sinni á fjórflokknum og hinni spilltu stjórnmálastétt sem þrífst í skjóli hans.

Umhyggjuleysi fyrir fólki.

Við getum ekki gengið útfrá því að í stjórnvaldsaðgerðum á Íslandi sé endilega tekið mið af umhyggju fyrir fólki.   Til þess ræður Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hér allt of miklu.  Ríkisstjórnin virðist að miklu leyti á valdi hans.    Verk Alþjóða gjaldeyrissjóðsins í öðrum löndum sýna að sjóðurinn ber ekki umhyggju fyrir fólki .   Hlutverk hans er að standa vörð um að bankar og fjármálastofnanir heimsins missi ekki sitt.  Umhyggja hans miðar að því og þess vegna eru fyrirskipanir hans harðar og kaldar og geta komið niður á venjulegu saklausu fólki.    Enn aukin harka í innheimtumálum og mannlegir harmleikir sem væntanlega munu sjást í auknum mæili með haustinu eru hugsanlega runnin undan rifjum hans.

Bankarnir eru heldur engar góðgerðarstofnanir.   Það ríkir óskiljanleg leynd yfir hverjir eigi tvo af þremur íslensku bankanna en ýmislegt bendir til að þeir séu að mestu í eigu elrlendra vogunarsjóða.  Það er aðeins eitt sem slíkir eigendur stefna á og það er hámarkshagnaður af starfsemi bankanna.   Að þessum vilja eigendanna verður starfsfólk þessara banka að vinna, ef það á að halda störfum sínum.

Þessir bankar keyptu skuldir íslenskra skuldara með miklum afföllum, en reyna nú af hörku að ná sem flestum lánum að fullu og reikna mismuninn auðvitað sem hreinan hagnað.  Það er ekki afskrifað hjá venjulegu fólki sem berst í bökkum.  Þannig hagnast bankarnir núna um tugi milljarða – og fyllast af peningum.  Á meðan eru æ fleiri Íslenskir skuldarar bornir út af heimilum sínum og missa allt sitt, - og þetta á eftir að versna

Ákafi Evrópusambandsins að innlima okkur.

Ákafi Evrópusambandsins að innlima okkur inn í það mikla og verðandi sovétbákn kemur æ berlegar í ljós.   Annar núverandi stjórnarflokka fékk mikið fylgi í síðustu kosninum, m.a. út á það að það var skýrt í stefnuskrá hans að flokkurinn vildi EKKI að ísland gengi í Evrópusambandið.  -  Samt stendur þessi flokkur nú að því að inngönguferli íslands í ESB er komið á fullt og það í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar.    Þetta svokallaða umsóknarferli sem nú er komið í gang er í raun blekking, því hér er ekki um umsóknarferli að ræða heldur inngönguferli.  Og þið skuluð taka eftir því að þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta örlagamál, þá mun Evrópusambandi dæla inn peningum í áróðursmaskínu þeirra sem vilja aðild, fengnar verða færustu auglýsingastofur og áróðursmeistarar til að snúa þjóðinni til fylgis við aðild.  

Ákafi ESB að innlima okkur snýst ekki um umhyggju fyrir þessum þrjúhundruð þúsundum sem hér búa, heldur ásókn í auðlindir okkar og þá skipaleið um Norðurpólinn sem er að opnast með bráðnun hans.  

Tímans vegna verð ég að sleppa því að tala um annað sem hægt væri að tala um á þessum frelsisdegi, s.s. veð útlendinga í óveiddum fiski hér við strendurnar,  sókn útlendinga í yfirráð yfir orkulindum, Magma Energy,  og landflótta ungs fólks.   Það verður að bíða.

Ég læt hitt nægja til að benda á hvernig við höfum ekki aðeins verið blekkt heldur erum áfram blekkt og plötuð.

IMG_8063Trúmál og stjórnmál eru nátengd.

Ástæðan fyrir að ég er að tala um þetta hér í kirkjunni á lýðveldisdeginum er sú að trúmál og stjórmál eru nátengt. 

Stjórnmál og lífskjör á Íslandi varða fólk Guðs á Íslandi.   Við sem byggjum þetta land erum Guðs lýður, við erum börn hans sem hann ber umhyggju fyrir.   Þess vegna er ekki hægt að þegja yfir því þegar umhyggjulausar alþjóðastofnanir og alþjóðasamstök fara að ráðskast með líf fólks – Guðs fólks, - hér á Íslandi. 

Landið og gæði þess eru gjöf Guðs til okkar.

Það er Drottinn sjálfur sem hefur gefið okkur þetta land með öllum auðlindum þess og fegurð.  Það eru gæði landsins sem gera það að verkum að við eigum ekki að þurfa að vera stórskuldug þjóð með stóran hluta þjóðarinnar undir fátækramörkum, - eins og núna er.  Við eigum, vegna auðlindanna, að geta haft meira en nóg og verið aflögufær til að hjálpa þurfandi og sveltandi þjóðum í hinum s.k. þriðja heim.

Það er Drottinn sjálfur sem hefur gefið okkur þetta land og það er hverri kynslóð mikil ábyrgð hvernig við förum með landið og hvernig við skilum því til næstu kynslóðar.    Það er líka ábyrgðarmál hvort við látum umhyggjulausa banka og peningaöfl  setja líf fólks í rúst, eða hvort við fórnum fullveldinu.

Hvaðer til ráða?

Spurningin er:  Hvað er til ráða?  Svarið er að við þurfum hvert og eitt að gæta að sjálfum okkur.   Líf okkar hvers og eins er dýrmæt gjöf og við þurfum að fara vel með þá gjöf.   Við þurfum hvert og eitt að leggja rækt við sjálf okkur, bera umhyggju fyrir sjálfum okkur og umhyggju hvert fyrir öðru.  Þannig vopnbúumst við og þannig eflumst við sem einstaklingar og getum látið að okkur kveða, - ekki eingöngu með atkvæðum okkar heldur með því að taka virkan þátt í þjóðfélagsumræðunni, mynda okkur skoðanir og sýna stjórnmálafólki aðhald og losa okkur við þau sem eru spillt, veiklynd eða á annan hátt ómöguleg.

Réttur okkar hvers og eins.

Við þurfum að byggja okkur upp og gera okkur grein fyrir því að við erum hvert og eitt einstök og merkileg og við höfum rétt til að lágt í ljósi þær skoðanir sem við viljum og velja okkur að lifa lífinu með þeim hætti sem við sjálf viljum. 

Til að geta ræktað sjálfa þig þarftu að hafa í huga að þú hefur rétt til að taka eigin ákvarðanir um hvað þú gerir og þeim rétti fylgir að þú þarft að taka afleiðingunumn af eigin ákvörðunum.   Þú hefur líka rétt til að skipta um skoðun og þú hefur rétt til að gera mistök og bera ábyrgð á þeim.

Það er ekkert athugavert við að skipta um skoðun og það er ekkert athugavert við að gera mistök, það er bara hluti af því að vera manneskja.

Þú hefur líka rétt til að taka ákvarðanir sem öðrum finnast óskynsamlegar eða órökréttar, - þetta er þitt líf og þú ræður yfir því.   Þú hefur rétt til að skilja ekki alla hluti og þú hefur rétt til að segja að þér sé alveg sama um eitthvað.

Og þú hefur rétt til að segja nei, - það er helgur réttur þinn að segja nei, - við því sem þú vilt ekki gera og þú hefur enga ástæðu til að finna til sektarkenndar yfir því að segja nei, - þegar þig langar til að segja nei.

Leitum leiðsagnar Drottins.

Við þurfum að leggja stund á það sem íslenska þjóðin hefur kunnað og iðkað í þúsund ár, - að biðja.  Við þurfum sem einstaklingar, sem kirkja og sem samfélag að biðja Drottinn um hjálp og leiðsögn. 

Við skulum biðja hann um að gefa okkur sem einstaklingum og samtökum kjark og hugrekki og kraft til að berjast góðu baráttunni, segja umhyggjuleysinu, valdagræðginni og óheiðarleikanum stríð á hendur og verja sakleysið, fegurðina og hreinleikann. 

Megi Drottinn gefa okkur að stuðla að heilbrigðu mannlífi frjálsrar þjóðar í frjálsu landi – frjálsu Íslandi, -  þar sem ríkir réttlátt þjóðskipulag mótað af kristnum gildum,  - þjóðskipulag þar sem hver einstaklingur hefur tækifæri til að njóta sín og hæfileika sinna.

Megi blessun Drottins vera áfram yfir Íslandi um ókomin ár og aldir.

                                                                                                                  Egill Hallgrímsson.

                                                                                                                  www.ljosfari.net

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Betra er að kveikja ljós en formæla myrkrinu.

Höfundur

Egill Hallgrímsson
Egill Hallgrímsson
elskar fólk, engla dýr og aðrar lifandi verur.

Bloggvinir

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • The girl with the dragon tattoo
  • IMG_8063
  • IMG_8058
  • IMG_8058
  • crucifix1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.12.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband