Vonandi aflaga og afskræma þeir ekki gott listaverk

The_girl_with_the_dragon_tattooNú er verið að frumsýna ameríska kvikmynd gerða eftir skáldsögunni "Karlar sem hata konur" (Män som hatar kvinnor) en hún er fyrsta skáldsagan í Millenium-þríleik sænska höfundarins Stieg Larsson. Hinar tvær bækurnar eru "Stúlkan sem lék sér að eldinum" og "Loftkastalinn sem hrundi."

Sænsku kvikmyndirnar þrjár sem gerðar voru eftir þessum þremur bókum voru að mínu mati hreint snilldarverk og valið á leikurunum frábært.


Ég kvíði hins vegar að sjá amerísku útgáfuna sem heitir "The girl with the dragon tattoo" eins og enska þýðingin á fyrstu bókinni. Hollywood fólkinu hættir svo til að aflaga góð listaverk.


17. júní 2010. Hættum að láta bekkjast. - Verjum frelsið!

Meðal sóknarbarna minna og víða um Suðurland hefur orðið nokkur umræða um prédikun mína 17. júní s.l.  Hafa margir beðið um að fá að lesa hana. Þess vegna birti ég hana hér:  

Sr. Egill Hallgrímsson.  Prédikun í Torfastaðakirkju á lýðveldisdaginn 2010. 

Enn á ný höldum við Íslendingar hátíð á frelsisdegi.   Við fögunum yfir því að við teljum okkur vera frjálsa þjóð í frjálsu landi.  Við fögnum yfir þeim verðmætum sem fólgin eru í þjóðmenningu okkar.  

Kristin trú og þjóðmenningin.

Við sem komum til kirkju við fögnum yfir trúnni, en í þúsund ár hafa íslensk þjóðmenning og kristin trú verið samofin hver annarri með þjóðinni.   Í þúsund ár hefur kirkja Jesú Krists haft fótfestu í landinu og orð Guðs verið lesið og prédikað um landið allt.  Landið hefur verið helgað Guði með því að byggja kirkjur í hverju héraði, hverri sveit.  Í þessum kirkjum hefur þjóðin komið saman til fundar við Drottin, auk þess sem bænir hafa stigið upp frá heimilum landsins, kynslóð eftir kynslóð.

Það er grundvallaratriði í boðskap Jesú Krists að bera skuli ótakmarkaða virðingu fyrir helgi og rétti hvers einstaklings.   Þess vegna hafa mannréttindi náð meiri fótfestu í löndum þar sem kristin trú er ríkjandi en í öðrum löndum.  Slík lönd taka mið af kristnum gildum í stjórnarskrám sínum, í löggjöf sinni, uppbyggingu skólakerfisins, uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og í stjórnsýslunni allri.   Þar þar ber hæst Norðurlöndin,  Finland, Svíþjóð, Noreg, Danmörku og Ísland. Einmitt í þessum löndum - af öllum löndum í heiminum, - hafa sennilega skapast hvað nánust tengsl milli ríkis og kirkju.   Fólk um víða veröld horfir til þessara þjóðfélaga sem fyrirmynda annarra þjóða hvað varðar mannréttindi, mannúð og velferð.

Jesús Kristur er málsvari hinna undirokuðu.

IMG_8058Þeir guðsdómskraftar sem menn trúðu á í heðini voru hvorki kærleiksríkir né bjartir.   Þeir báru ekki umhyggju fyrir fólki enda þreifst margs konar ómannúð í skjóli þeirra,  svo sem barnaútburður og það að aumingjum og gamalmennum var hent fyrir björg.

Þetta breyttist er hinn hvíti Kristur, konungur konunganna og Drottinn drottnanna varð Drottinn og konungur norðurlandanna, en kross hans er einmitt í þjóðfánum þeirra allra.

Taumlaus grimmd, óheiðarleiki og kúgun á þeim sem minnimáttar voru þreifst auðvitað áfram í einhverjum mæli,  því  vondir menn og siðspilltir eru allstaðar á öllum öldum.  En þrátt fyrir það urðu alger umskipti er Jesús Kristur varð hinn nýi Drottinn Norðurlandanna.   Gjörsamlega nýr mannsskilningur varð ríkjandi,  og ný birta færðist yfir með nýju frelsi og nýrri mannúð.  

Hinir fátæku, undirokuðu og kúguðu eignuðust málsvara í Drottni Jesú. Hann fór einmitt  sveit úr sveit, þorp úr þorpi og borg úr borg, - án þess að eiga nokkurn fastan samastað - og gaf sig að slíku fólki sem vinur þess og bróðir,  er hann gekk hér um og gerði gott.  Þau eignuðust málsvara í honum sem kallaði hina minnstu og aumustu í samfélaginu bræður sína og systur og sagði:  „Hvað sem þið gerið þeim, - það gerið þið mér“.

Hann hefur nú verið konungur Íslands í 1000 ár og íslensk löggjöf, íslenskt heilbrigðiskerfi og menntakerfi hafa mótast af kristinni trú.

Við höfum verið blekkt.

Við höfum ástæðu til að fagna í dag, á 17. júní, fagna yfir landinu okkar, fagna yfir sumrinu, fagna frelsinu og bara því að vera til.  En um leið er það óneitanlega svo að það eru – núna þegar við höldum upp á 17 júní 2010, - undirliggjandi og ríkjandi talsverður ótti, gremja og reiði meðal þjóðarinnar og það ekki af ástæðulausu.

Við, venjulegir Íslendingar,  - við sem teljumst til alþýðu þessa lands, - við höfum verið plötuð.  Við höfum verið plötuð af forystumönnum í viðskiptalífi þessa lands, - svokölluðum auðmönnum og útrásarvíkingum.  Við höfum líka verið plötuð af stjórnmálamönnum,  - hin spillta stjórnmálastétt hefur platað okkur.  Við höfum líka verið plötuð af fjölmiðlum og fjölmiðlafólki,  sem flest var í eigu auðmanna og stjórnmálamanna eða brauðfætt af þeim.  Því var eðlilegt að þau flyttu fréttir í samræmi við vilja eigenda sinna.   Hrunið mikla, síðla árs 2008 varð jafn alvarlegt og raun ber vitni vegna gerða þessa fólks.

Það er enn verið að blekkja okkur.

Og það sem verst er.  Það er hætt við að enn sé verið að plata okkur.   Það er hætt við að enn sé verið að níðast á venjulegu fólki. 

Það er ekki af ástæðulausu að traust og trú á stjórnmálafólki  hefur hrunið meðal þjóðarinnar.  Þjóðin er engir kjánar.  Þjóðin sér hvers konar fólk þetta er upp til hópa.  Það er eins og allt of margir kasti hugsjónum sínum og sannfæringu þegar þau setjast á alþingi fyrir utan nú öll styrkjamálin, eða mútumálin eins og e.t.v. væri réttara að kalla þau.  

Það er engin furða þó búið sé að kjósa Sylvíu Nótt sem borgarstjóra í Reykjavík, - en ég held það sé rétt sem Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri segir, að sá merki maður, Jón Gnarr sé ekkert annað en Sylvía Nótt í öðru veldi.  Fólk er með þessu að lýsa vanþóknun sinni á fjórflokknum og hinni spilltu stjórnmálastétt sem þrífst í skjóli hans.

Umhyggjuleysi fyrir fólki.

Við getum ekki gengið útfrá því að í stjórnvaldsaðgerðum á Íslandi sé endilega tekið mið af umhyggju fyrir fólki.   Til þess ræður Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hér allt of miklu.  Ríkisstjórnin virðist að miklu leyti á valdi hans.    Verk Alþjóða gjaldeyrissjóðsins í öðrum löndum sýna að sjóðurinn ber ekki umhyggju fyrir fólki .   Hlutverk hans er að standa vörð um að bankar og fjármálastofnanir heimsins missi ekki sitt.  Umhyggja hans miðar að því og þess vegna eru fyrirskipanir hans harðar og kaldar og geta komið niður á venjulegu saklausu fólki.    Enn aukin harka í innheimtumálum og mannlegir harmleikir sem væntanlega munu sjást í auknum mæili með haustinu eru hugsanlega runnin undan rifjum hans.

Bankarnir eru heldur engar góðgerðarstofnanir.   Það ríkir óskiljanleg leynd yfir hverjir eigi tvo af þremur íslensku bankanna en ýmislegt bendir til að þeir séu að mestu í eigu elrlendra vogunarsjóða.  Það er aðeins eitt sem slíkir eigendur stefna á og það er hámarkshagnaður af starfsemi bankanna.   Að þessum vilja eigendanna verður starfsfólk þessara banka að vinna, ef það á að halda störfum sínum.

Þessir bankar keyptu skuldir íslenskra skuldara með miklum afföllum, en reyna nú af hörku að ná sem flestum lánum að fullu og reikna mismuninn auðvitað sem hreinan hagnað.  Það er ekki afskrifað hjá venjulegu fólki sem berst í bökkum.  Þannig hagnast bankarnir núna um tugi milljarða – og fyllast af peningum.  Á meðan eru æ fleiri Íslenskir skuldarar bornir út af heimilum sínum og missa allt sitt, - og þetta á eftir að versna

Ákafi Evrópusambandsins að innlima okkur.

Ákafi Evrópusambandsins að innlima okkur inn í það mikla og verðandi sovétbákn kemur æ berlegar í ljós.   Annar núverandi stjórnarflokka fékk mikið fylgi í síðustu kosninum, m.a. út á það að það var skýrt í stefnuskrá hans að flokkurinn vildi EKKI að ísland gengi í Evrópusambandið.  -  Samt stendur þessi flokkur nú að því að inngönguferli íslands í ESB er komið á fullt og það í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar.    Þetta svokallaða umsóknarferli sem nú er komið í gang er í raun blekking, því hér er ekki um umsóknarferli að ræða heldur inngönguferli.  Og þið skuluð taka eftir því að þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta örlagamál, þá mun Evrópusambandi dæla inn peningum í áróðursmaskínu þeirra sem vilja aðild, fengnar verða færustu auglýsingastofur og áróðursmeistarar til að snúa þjóðinni til fylgis við aðild.  

Ákafi ESB að innlima okkur snýst ekki um umhyggju fyrir þessum þrjúhundruð þúsundum sem hér búa, heldur ásókn í auðlindir okkar og þá skipaleið um Norðurpólinn sem er að opnast með bráðnun hans.  

Tímans vegna verð ég að sleppa því að tala um annað sem hægt væri að tala um á þessum frelsisdegi, s.s. veð útlendinga í óveiddum fiski hér við strendurnar,  sókn útlendinga í yfirráð yfir orkulindum, Magma Energy,  og landflótta ungs fólks.   Það verður að bíða.

Ég læt hitt nægja til að benda á hvernig við höfum ekki aðeins verið blekkt heldur erum áfram blekkt og plötuð.

IMG_8063Trúmál og stjórnmál eru nátengd.

Ástæðan fyrir að ég er að tala um þetta hér í kirkjunni á lýðveldisdeginum er sú að trúmál og stjórmál eru nátengt. 

Stjórnmál og lífskjör á Íslandi varða fólk Guðs á Íslandi.   Við sem byggjum þetta land erum Guðs lýður, við erum börn hans sem hann ber umhyggju fyrir.   Þess vegna er ekki hægt að þegja yfir því þegar umhyggjulausar alþjóðastofnanir og alþjóðasamstök fara að ráðskast með líf fólks – Guðs fólks, - hér á Íslandi. 

Landið og gæði þess eru gjöf Guðs til okkar.

Það er Drottinn sjálfur sem hefur gefið okkur þetta land með öllum auðlindum þess og fegurð.  Það eru gæði landsins sem gera það að verkum að við eigum ekki að þurfa að vera stórskuldug þjóð með stóran hluta þjóðarinnar undir fátækramörkum, - eins og núna er.  Við eigum, vegna auðlindanna, að geta haft meira en nóg og verið aflögufær til að hjálpa þurfandi og sveltandi þjóðum í hinum s.k. þriðja heim.

Það er Drottinn sjálfur sem hefur gefið okkur þetta land og það er hverri kynslóð mikil ábyrgð hvernig við förum með landið og hvernig við skilum því til næstu kynslóðar.    Það er líka ábyrgðarmál hvort við látum umhyggjulausa banka og peningaöfl  setja líf fólks í rúst, eða hvort við fórnum fullveldinu.

Hvaðer til ráða?

Spurningin er:  Hvað er til ráða?  Svarið er að við þurfum hvert og eitt að gæta að sjálfum okkur.   Líf okkar hvers og eins er dýrmæt gjöf og við þurfum að fara vel með þá gjöf.   Við þurfum hvert og eitt að leggja rækt við sjálf okkur, bera umhyggju fyrir sjálfum okkur og umhyggju hvert fyrir öðru.  Þannig vopnbúumst við og þannig eflumst við sem einstaklingar og getum látið að okkur kveða, - ekki eingöngu með atkvæðum okkar heldur með því að taka virkan þátt í þjóðfélagsumræðunni, mynda okkur skoðanir og sýna stjórnmálafólki aðhald og losa okkur við þau sem eru spillt, veiklynd eða á annan hátt ómöguleg.

Réttur okkar hvers og eins.

Við þurfum að byggja okkur upp og gera okkur grein fyrir því að við erum hvert og eitt einstök og merkileg og við höfum rétt til að lágt í ljósi þær skoðanir sem við viljum og velja okkur að lifa lífinu með þeim hætti sem við sjálf viljum. 

Til að geta ræktað sjálfa þig þarftu að hafa í huga að þú hefur rétt til að taka eigin ákvarðanir um hvað þú gerir og þeim rétti fylgir að þú þarft að taka afleiðingunumn af eigin ákvörðunum.   Þú hefur líka rétt til að skipta um skoðun og þú hefur rétt til að gera mistök og bera ábyrgð á þeim.

Það er ekkert athugavert við að skipta um skoðun og það er ekkert athugavert við að gera mistök, það er bara hluti af því að vera manneskja.

Þú hefur líka rétt til að taka ákvarðanir sem öðrum finnast óskynsamlegar eða órökréttar, - þetta er þitt líf og þú ræður yfir því.   Þú hefur rétt til að skilja ekki alla hluti og þú hefur rétt til að segja að þér sé alveg sama um eitthvað.

Og þú hefur rétt til að segja nei, - það er helgur réttur þinn að segja nei, - við því sem þú vilt ekki gera og þú hefur enga ástæðu til að finna til sektarkenndar yfir því að segja nei, - þegar þig langar til að segja nei.

Leitum leiðsagnar Drottins.

Við þurfum að leggja stund á það sem íslenska þjóðin hefur kunnað og iðkað í þúsund ár, - að biðja.  Við þurfum sem einstaklingar, sem kirkja og sem samfélag að biðja Drottinn um hjálp og leiðsögn. 

Við skulum biðja hann um að gefa okkur sem einstaklingum og samtökum kjark og hugrekki og kraft til að berjast góðu baráttunni, segja umhyggjuleysinu, valdagræðginni og óheiðarleikanum stríð á hendur og verja sakleysið, fegurðina og hreinleikann. 

Megi Drottinn gefa okkur að stuðla að heilbrigðu mannlífi frjálsrar þjóðar í frjálsu landi – frjálsu Íslandi, -  þar sem ríkir réttlátt þjóðskipulag mótað af kristnum gildum,  - þjóðskipulag þar sem hver einstaklingur hefur tækifæri til að njóta sín og hæfileika sinna.

Megi blessun Drottins vera áfram yfir Íslandi um ókomin ár og aldir.

                                                                                                                  Egill Hallgrímsson.

                                                                                                                  www.ljosfari.net

 

 


Föstudagurinn langi.

Í helgihaldi kristinna manna hefur föstudagurinn langi sérstöðu.   Hann er ekki hátíð, heldur er hann samkvæmt íslenskri málvenju háhelgur dagur.

Við söfnumst saman undir krossinum í dag með kristnum systkinum okkar um víða veröld.   Það eru ekki fjarlægir atburðir sem við minnumst í dag, heldur eru þeir sínálægir og þess vegna varða þeir okkur.crucifix1

Hann sem negldur er á krossinn braut það af sér að tala sannleikann án manngreinarálits.  Hann riesti upp niðurbeygða og læknaði sundurmarin hjörtu.  Þar sem hann fór um þögnuðu kvalastunurnar og fólk eignaðist nýja von og fékk nýja sýn og nýjan kjark til að takast á við lífið. 

Hinn mikli friðþægingardagur allrar veraldarinnar er í dag.   En það sem við hugsum og tölum í dag er hneyksli og heimska í augum heimsins.   Þannig hefur það alltaf verið og er enn að menn hæðast að Kristi á krossinum og okkur sem söfnumst umhverfis kross hans.

Það er svo margt sem er óskiljanlegt í ráðsályktun Guðs.   Þess vegna skulum við, þrátt fyrir hæðnisbendingarnar,  dvelja við krossinn og horfa á hann með innri augum okkar,  „því að heimska Guðs er mönnum vitrarir og veikleiki Guðs mönnum sterkari." (I Kor 1.25)

 „Enginn hefur meiri kærleik en þann að legga líf sitt í sölurnar fyrir vini sína."  (Jóh 15.13)  Jesús lét lífið fyrir vini sína, en ekki einungis fyrir þá, heldur einnig óvini sína sem enn eiga kost á að gerast vinir hans.   Óvinir hans eru þeir menn sem á öllum öldum krossfesta hann að nýju með því að koma illa fram við annað fólk og leggja líf þess jafnvel í rúst.

Krossinn er lífs og sigurmerki.   Við sem erum þreytt og hrelld skulum halla okkur að krossi Jesú í dag.  Við skulum biðja Drottin að kveikja kærleikseld sinn í hjörtum okkar.   Síðan skulum við sækja fram, í krafti upprisunnar, undir merki þessa sama kross - sækja fram til að vinna  stóra sigra lífinu. 

Þannig getum við látið um okkur muna í því að segja öllu því stríð á hendur sem afskræmir manninn og veldur óhamingju og böli meðal fólks.   Þannig getum við látið um okkur muna í baráttunni fyrir því að við og systkini okkar um víða veröld fáum að lifa við þau skilyrði að við getum notið þess að vera til.


Queen lögin hljóma í höfðinu.

IMG_5094Nú hefur Queen tónlist hljómað í höfðinu á mér í tæpa þrjá sólarhringa.  Ég fór á Queen tónleika í Fífunni í Kópavogi á fimmtudagskvöld.  Rúmlega 2000 voru á tónleikunum.

Þarna sungu stórstjörnurnar Magni Ásgeirsson, Eiríkur Hauksson og Hera Björk ásamt Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands en á rafmagnsgíturum voru Trausti Örn Einarsson og maður sem kynntur var sem Einar en hann spilar víst lika í Idol .  Bassagítarleikari var maður sem kallaður var Róbert en á Trommunum var maður sem heitir Stefán.   Þetta fólk er held ég flest í Jazzbandi Suðurlands.   Guðfaðir þessara tónleika og sá sem lagði grunnin að því að því að þessir tónleikar gátu orðið er stjórnandi kórsins Stefán Þorleifsson en hann lék á hljómborð.

Þessir tónleikar voru meistaraverk – í raun afrek, - og eru Stefáni til mikils sóma.  Hann útsetti allt fyrir kórinn sem hlýtur að hafa verið gífurlegt verk.  IMG_5110 Mér skilst að hann hafi líka átt hugmyndina að því að fá Magna til að syngja, en upphaflega voru tónleikarnir í maí á síðasta ári á Selfossi en þá var Magni eina stórstirnið ásamt Gyðu Björgvinsdóttur.  Það voru líka góðir tónleikar, ekki síðri en þeir í Kópavoginum.

Það var gaman að sjá hvernig Stefán lék á hljómborðið og sá um leið um að hafa stjórn á kórnum, en unga fólkið þar söng frábærlega.

Queen lögin hafa alla tíð höfðað mjög til mín, eins og svo fjölmargra annarra.  Það er skemmtileg reynsla  að sjá þessa tónlist vera flutta með þeim hætti sem gert var á Selfossi í maí á síðasta ári og í Kópavogi á fimmtudagskvöldið.   Queen tónlistin er þess eðlis að hún mun lifa mjög lengi.

IMG_5105

Stefán er að gera merkilega  hluti með kórnum, auk þess sem hann er organisti í Hrunaprestakalli og rekur Tónsmiðju Suðurlands (og gerir örugglega margt margt fleira).   Í október s.l. kom hann með kórinn í Skálholtsdómkirkju en áður höfðu þau verið í Selfosskirkju.  Þar flutti unga fólkið trúarlega tónlist úr ýmsum áttum og frá ýmsum tímum, en þeir tónleikar voru mjög áhrifaríkir og eftirminnilegir.   

Á undan tónleikunum spilaði Ingó (kenndur við Veðurguðina) á kassagítar og söng.  Sá hefur aldeilis hæfileika.  Hann sat einn með gítarinn fyrir framan 2000 manna sal í meira en hálftíma og var svo skemmtilegur að hann hélt öllum uppteknum og engum leiddist.

Tónleikarnir á fimmtudagskvöldið voru merkileg reynsla og Stefáni og Kór Fjölbrautaskólans á Selfossi og öllum hinnum til mikils sóma.  Ljóst er að Queen lögin munu hljóma í höfði mér fram yfir helgina.


Markmið, velgengni og veruleikinn.

Sú kenning er eignuð Bandaríkjamanninum Zig Ziglar að við getum öðlast allt það sem við viljum í lífinu með því einu að hjálpa nógu mörgum að öðlast það sem þau vilja fá.  Ég hneygist að því að þetta sé rétt hjá honum.  Alla vega er það ljóst að í tilverunni eru lögmál sem við þurfum að fylgja, ef við viljum njóta velgengni og lífshamingju.Fjoll

Í helgarblaði DV er uppbyggilegt viðtal við ungan athafnamann í Reykjavík, Ragnar Unnarsson.  Ég mæli með að menn lesi þetta viðtal, því þarna virðist fara maður sem kann að njóta lífsins og er auk þess vel meðvitaður um þau grundavllarlögmál sem gilda í tilverunni.   Hann hagar sér í samræmi við þessi lögmál, enda virðist hann eiga velgengni að fagna, bæði fjárhagslegri sem og hvað það varðar að njóta daganna.

Í viðtalinu bendir Ragnar á að allt gott sem fólk geri fái það margfalt til baka. Hann bendir líka á að ef maður sendi fólki illar hugsanir, komi þær í bakið á manni í einhverri mynd.

Hann miðlar einnig því sem hann lærði hjá hinum merka lífsþjálfara Anthony Robbins, hversu mikilvægt það er að maður læri á sjálfan sig, hvað maður vill og hvers vegna og hver stefna manns er í lífinu.  Síðan segir Ragnar: Margir láta reka á reiðanum í lífinu og eru eins og skip sem nær hvergi höfn. Ég vil hafa markmið og ná þeim.

Yfirskrift viðtalsins er reyndar setningin, Skráð markmið verða að veruleika, og er þar bent á sannindi sem allt of fáir nýta sér.  Reynsla fólks sem er að ná árangri sýnir að það munar öllu hvort við skráum markmið okkar á blað eða ekki.  Ragnar skráir markmið sín, bæði dagleg markmið og langtímamarkmið.  Hann segist skipuleggja sig vel og ljóst er að hann fer hratt að þeim markmiðum sem hann segur sér. Samkvæmt viðtalinu hafa fimm ára markmiðin sem hann setti á blað í fyrra öll gengið eftir nú þegar. 

Mér finnst skína í gegn, í þessu viðtali, að þarna fer maður sem býr bæði yfir heiðarleika og velvilja í garð annars fólks.  Þessir tveir mannkostir eiga þátt í velgengni hans.

Í viðtalinu kemur fram maður sem í lífi sínu er að rækta garðinn sinn bæði á hinu andlega og veraldlega sviði enda segir hann:  Hamingjan kemur að innan. Það fer eftir viðhorfi fólks gagnvart lífinu hvernig því líður. Það veikjast allir, lenda í peningahremmingum eð einhverjum ógöngum en það kalla ég bara "so what?"  Það sleppur enginn við einhverja slæma lífsreynslu. Það þarf bara að læra að horfa ekki á vandamálið heldur lausnirnar.

Menn eins og Ragnar hafa tileinkað sér hugsanagang sem ekki aðeins getur gert þeim auðvelt með að verða billjarðamæringar (ef þeir kæra sig um), heldur auðga þeir og bæta líf fjölda fólks á leiðinni að því marki.  

Það er gaman þegar slíkir menn gefa innsýn inn í líf sitt því það má margt af þeim læra.


Góð ímynd og hættulegt fólk.

Það er mikil áhersla á fagurt yfirborð og umbúðir á okkar tímum.  Þetta sést m.a. í þeim blómlega iðnaði og verslun sem snýst um fegrunar- og snyrtivörur alls konar.  Talsverður hluti af vinnu lýtalækna í heiminum snýst ekki um að lagfæra raunveruleg lýti á fólki, heldur að gera fagurt fólk enn fegurra. IMG_0043 

Ein birtingarmynd þessarar áherslu á fagurt yfirborð kemur fram í því að hluti fólks er stöðugt að hugsa um hina svokölluðu ímynd sína.  Þetta á einkum við um fólk sem sækist eftir frama í samfélaginu eða þá sem eiga allt sitt undir lýðhylli, eins og t.d. stjórnmálamenn.  Þá snýst allt um að láta sjá sig með rétta fólkinu, stunda réttu áhugamálin, láta í ljós réttu skoðanirnar og láta ekki neitt vitnast um sig sem kann að virðast tortyggilegt og getur skaðað þessa s.k. ímynd.  

Sumir borga kunnáttumönnum háar fjárhæðir fyrir að hjálpa sér í þessum efnum.

Þetta fylgir því að við lifum við meiri almenna velmegun en þekkst hefur í heiminum áður.  Fólk sem ekki er bundið við brauðstrit og harða lífsbaráttu hefur tíma og efni til að vera stöðugt að snyrta sig og snurfusa og spá í hvað öðrum finnst um það. 

Auðvitað stendur okkur fæstum alveg á sama um hvernig við lítum út eða hvað öðrum finnst um okkur.  En þessi ofuráhersla á yfirborðið og ímyndina hlýtur þó að einhverju leyti að teljast vafasöm út frá sjónarhorni Kristinnar trúar.  Út frá Kristnum mannskilningi skiptir hið innra öllu máli, að við leitumst við, með Guðs hjálp, að vera heil og sönn og fylgja boðum Guðs og eigin samvisku, þó svo að það kunni að valda óþægindum í samskiptum við aðra.

Þannig var Jesú sjálfur.  Enda beið ímynd hans hnekki á meðal þeirra sem virðindar nutu í samfélaginu er hann tók að umgangast alls konar fólk, þar á meðal tollheimtumenn og bersynduga.

Til að geta verið sannar og heilar manneskjur þurfum við rækta okkur hið innra og það gerum við með Guðs hjálp.  Það gerum við með því að rækta það innileikasamband við lifandi Drottinn sem sr. Hallgrímur Pétursson lýsti svo vel er hann orti: Vaktu minn Jesú vaktu í mér / vaka láttu mig eins í þér, / sálin vakir þá sofnar líf, / sé hún ætið í þinni hlíf.

Treystum ekki fólki sem leggur ofur áherslu á að byggja upp ímynd sína og njóta vinsælda, því það fólk hefur látið glepjast af yfirborðsmennsku samtímans.  Við skulum í þessum efnum muna orðin úr Fyrri Samúlesbók, 16. kafla: Guð lítur ekki á það, sem mennirnir líta á. Mennirnir líta á útlitið, en Drottinn lítur á hjartað.`   

Við skulum biðja Guð að hjálpa okkur að rækta með okkur þá innsýn að við getum skoðað eigið hjartalag og verið þannig í tengslum við sjálf okkur og eigin tilfinningar. Biðjum hann að gefa okkur líka innsýn inn í hjartalag annars fólks.  Því það er mikið af hræsnurum og úlfum í sauðagærum á meðal okkar.  Við þurfum að læra að greina þá, svo við getum forðast þá og varað aðra við þeim.


Ríkasti maðurinn í Babýlon.

Ein þeirra bóka sem ég held mikið upp á og ráðlegg vinum mínum að lesa er bókin "The Richest Man in Babylon" eftir George S. Clason.  richest_man

Bókin er í söguformi og fannst mér hún skemmtileg lesning.  Þegar ég las hana í fyrsta sinn las ég hana í rúminu á kvöldin og hlakkaði alltaf til að fara í rúmið. Sagan er sögð á gamaldags ensku, - svipuðu máli og sjá má í gömlum enskum biblíuþýðingum.  Það er gert til að færa huga lesandans enn nær hinni fornu Babýlon og lífinu þar.

Bókin inniheldur leiðbeiningar um hvernig hægt er að losna úr skuldum og efnast síðan vel, - án þess að þurfa endilega að auka tekjur sínar með því að vinna meira. 

Þessi bók er full af lífsvisku.  Þær leiðbeiningar sem í henni eru settar fram varðandi meðferð peninga eru skýrar og einfaldar.  Það er auðvelt fyrir venjulegt fólk að tileinka sér þessar leiðbeiningar og fylgja þeim í daglegu lífi sínu.  Sá sem af samviskusemi gerir það verður verulega auðugur. 

Það sem kennt er í bókinni er sett fram af sögupersónunum bókarinnar og rökstutt að hætti fyrri tíðar manna.  Auðvitað mótmæla sumar sögupersónur þeim ráðum sem gefin eru (líkt og margir í nútímanum) en það er þá notað til að rökstyðja enn betur það sem kennt er og sýna enn betur fram á hvernig það leiðir frá fátækt til ríkidæmis.  Þau grundvallaratriði sem menn þurfa að tileinka sér til að komast úr skuldum og verða vel stæðir eru greinilega enn þau sömu og þau voru til forna. 

Innihald þessarar bókar stuðlar tvímælalaust að heilbrigðara viðhorfi lesandans til peninga og getur losað fólk undan ranghugmyndum sem margir eru haldnir varðandi auðsöfnun og ríkidæmi.

Ég hvet alla sem vilja öðlast nýtt fjárhagslegt frelsi að kaupa þessa bók og lesa hana gaumgæfilega.  Þetta er lítil bók í vasabrotsformi og hún kostar lítið.  Ég hef stundum séð hana á loftinu í Pennanum - Eymundsson við Austurstræti og án efa má finna hana í fleiri bókabúðum.  Að sjálfsögðu er einnig hægt að panta hana hjá Amazon.


Lokum ekki á leiðir sem virka.

Fyrir u.þ.b. hálfu ári síðan fór ég að finna fyrir stóraukinni orku og vellíðan. Einnig losnaði ég algerlega við brjóstsviða sem var orðinn svo þrálátur að ég var farinn að taka lyf við honum.  Auk þess fór ístra sem ég var kominn með framan á mig að minnka jafnt og þétt, mér til ómældrar gleði. Hlaup1 Nú hef ég lést um 12 kíló, enda er ístran svo til horfin og ég stöðugt að verða flottari í laginu.   Ástæðan er sú að fyrir u.þ.b. hálfu ári fór ég að nota Herbalife vörurnar.

Í gegnum Herbalife hef ég auk þess kynnst fjöldanum öllum af hressu skemmtilegu fólki sem er að stunda sjálfsrækt njóta lífsins, - fólki sem uppbyggilegt er að vera nálægt.

Ein þeirra, Anna Margrét Bjarnadóttir, skrifaði í gærkvöldi smá pistil í athugasemdadálkinn við síðustu færslu mína hér á síðunni. Mig langar til að birta hér hluta af því sem hún segir, því reynsla hennar er reynsla svo margra sem eru að nota þessar frábæru vörur.  Anna Margrét segir meðal annars:

"Hugsa sér að 70% þeirra íslendinga sem leggjast inn á sjúkrahús gera það vegna lífstílstengdra sjúkdóma, sjúkdóma sem þeir fá vegna slæms lífsstíls og væri hægt að koma í veg fyrir með því einu að bæta lífstíl sinn og matarræði. Er heilbrigðiskerfið í stakk búið að hjálpa fólki til að bæta lífstíl sinn? Hjálpa einum í einu og fylgja þeim eftir? Herbalife hefur fengið miljónir manna til að laga lífstíl sinn, bæta matarræði, huga að mannrækt, byggja upp fjárhag sinn og stunda reglulega hreyfingu. Þeir hafa fengið þúsundir manna sem aldrei hafa stundað íþróttir til að gera það. Miljónir manna út um allan heim hafa fengið raunverulega heilsubót með því að nota næringarvörur þessa stærsta heilsufyrirtæki heims sem hefur verið leiðandi í heilsu og næringarvörum í 26 ár.  ...  Ég er sjálf búin að ná miklum árangri á tveimur og hálfu ári með að bæta mína heilsu með notkun Herbalife næringarvörunnar og með því að breyta um matarræði og lífstíl. Ég er meðal annars búin að ná miklum árangri gegn gigt sem var búin að vera að kvelja mig í fleiri ár og er nú algjörlega hætt að nota gigtarlyf. Ef einhver hefði sagt við mig fyrir tveimur og hálfu ári að ég gæti náð svona miklum árangri með því einu að breyta matarræði mínu í hollustumatarræði og fara að hreyfa mig reglulega hefði ég sennilega ekki trúað honum, eða þótt það óyfirstiganlega erfitt að gera þær breytingar sem að ég þurfti í mínu lífi til að ná þvílíkum árangri. En skref fyrir skref gat ég það með hjálp lífstílsleiðbeinanda. Af sjálfsögðu þegar ég er búin að fynna leið sem hefur gagnast mér svona vel langar mig til að láta þá sem að mér þykir vænt um vita af henni. Einnig langar mig til að hjálpa fólki að ná þvílíkum árangri. Það sama gerir Sr Egill...."

Pistilinn í heild má lesa á athugasemdasvæðinu við síðustu bloggfærslu mína. 

Mér finnst heilsusaga Önnu Margrétar Bjarnadóttur merkileg og hvet alla sem áhuga hafa á að lesa hana að fara á heimasíðu hennar http://www.heilsufrettir.is/annamargret

Á meðfylgjandi mynd er ég ásamt Önnu Margréti og Þór Sigurþórssyni en við vorum meðal þeirra þúsunda karla og kvenna sem tókum þátt í 5 kílómetra hlaupi á vegum Herbalife Family Foundation enn regnvotan morgunn í Köln í sumar.


Hverjir mega tala um fjárfestingar?

IMG_0136Það virðist vekja undrun og jafnvel hneykslan sumra að eitt af fjölmörgum áhugamálum mínum eru fjárfestingar sem ég stunda ásamt félögum mínum í Bridge fjárfestingaklúbbnum. Samt er ég yfir mig ánægður með að vera í klúbbnum og það sama gildir um félaga mína þar, - en þeir eru margir.

Ég hef ekki þagað yfir þessum klúbbi eftir að mér varð ljóst hvílíkir möguleikar eru fólgnir í aðild að honum og látið "entrepreneur minded" fólk sem ég þekki vita af honum. 

Sjálfur kynntist ég klúbbnum í júní á síðasta ári og var í fyrstu mjög tortrygginn. En þegar ég skoðaði hlutina betur og leitaði mér allra upplýsinga sem ég gat orðið mér úti um þá hvarf sú tortryggni.  Eftir að hafa verið í meira en ár í klúbbnum eru allar efasemdir um ágæti hans horfnar.

Bridge fjárfestingaklúbburinn gerir okkur sem í honum erum mögulegt að fjárfesta í álitlegum, óskráðum sprota- eða uppgangsfyrirtækjum þar sem verðmæti hlutabréfablokka okkar vex ótrúlega hratt og getur margfaldast á tiltölulega skömmum tíma EF vel gengur. 

Í dag tel ég það sérstaka gæfu að hafa kynnst Bridge og mér finnst það vera sérstök forréttindi að geta gefið öðrum réttar upplýsingar um klúbbinn og hjálpað þeim að gerast félagar. Þess vegna þegi ég ekki yfir honum þó ýmsir kunni að hneykslast eða undrast á mér fyrir það.

Þessi alþjóðlegi félagsskapur, sem Bridge fjárfestingaklúbburinn er, - er nú þegar kominn af stað með að breyta íslensku samfélagi og lífi fólks víða um heim.  Vissulega eru þetta áhættufjárfestingar sem við erum að stunda. En það er alveg nýtt að almenningi gefst kostur á að fjárfesta í óskráðum fyrirtækjum á alþjóðamarkaði, án þess að þurfa að taka þá áhættu að missa hemili sín eða leggja fjárhag sinn í rúst.

Á meðfylgjandi mynd er ég á bát utan við strendur eyjarinnar Fuerteventura.  Ég er að tala í GSM símann minn við klúbbfélaga heima á Íslandi. Umræðuefnið er að sjálfsögðu fjárfestingar.


Loksins, loksins!

IMG_0239Loksins, loksins!  Ég hef lengi ætlað að byrja að blogga.  Það er góð tilfinning að vera kominn af stað. Internetið er ótrúlegt. Hér hef ég mitt eigið málgagn, minn eigin prédikunarstól þar sem ég get komið viðhorfum mínum á framfæri. Hér get ég samhæft reynslu mína, styrk og vonir við reynslu þeirra sem nenna að lesa. Ég hef gaman af að lesa blogg annars fólks, þ.e.a.s. sumra.

Í sumar hef ég verið að prófa nýja hluti, - gera nýja hluti sem ég aldrei gert áður.  T.d. fór ég í fyrsta sinn í sólarlandaferð til Fuerteventura, sem er ein af Kanaríeyjunum, með fjölskyldu minni, eiginkonu og börnum. Það höfðum við aldrei gert áður og mér fannst það merkileg og góð reynsla.

IMG_0491

  Ég gerði það líka í fyrsa sinn í sumar að vakna klukkan sex að morgni í erlendri stórborg, - Köln, - fara í stuttbuxur, hlaupaskó og bol og hlaupa síðan 5 kílómetra í morgunrigningunni ásamt þúsundum manna frá flestum Evrópulöndum.  Hlaupið var til styrktar fátækum börnum og var á vegum Herbalife Family Foundation.  Það var í tengslum við átján þúsund manna Herbalife Extravaganza ráðstefnu sem haldin var í Köln.  Þetta morgunhlaup á Rínarbökkum og yfir báðar brýrnar hjá miðbæ Kölnar fannst mér einstaklega skemmtileg og uppbyggileg reynsla.

Að byrja að blogga er það þriðja markverða sem ég geri í fyrsta sinn á þessu sumri.  Efri myndin sem ég birti með þessari færslu er af mér börnunumm mínum á Fuerteventura í sumar.  Konan mín tók myndina. Síðari myndin er tekin í Köln, á annarri brúnni yfir Rín. Kölnardómkirkja sérst í fjarska hinum megin við ána.  


Um bloggið

Betra er að kveikja ljós en formæla myrkrinu.

Höfundur

Egill Hallgrímsson
Egill Hallgrímsson
elskar fólk, engla dýr og aðrar lifandi verur.

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • The girl with the dragon tattoo
  • IMG_8063
  • IMG_8058
  • IMG_8058
  • crucifix1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband